Til baka
Til baka
Fiskitaco með sýrðu rótargrænmeti
+ 60 mín.
30–60 mín.
– 30 mín.
Hráefni

500 g þorskhnakkar
300 g pankó-raspur
1 búnt steinselja
1 búnt kóríander
1 búnt graslaukur
1 búnt basilika
400 g hveiti
25 g paprikuduft
25 g hvítlauksduft
10 g  chiliduft
40 g salt
4 stk. egg
Tortillakökur
Japanskt mæjónes (fæst í flestum betri matvöruverslunum)

Lárperumauk
3 stk. vel þroskaðar lárperur (avocado)
½ stk. rauðlaukur
½ búnt kóríander
2 stk. tómatar
Safi úr ½ límónu (lime)
Salt eftir smekk

Sýrt rótargrænmeti
2 stk. gulrætur
½ sellerírót
1 stk. rauðlaukur
½ sæt kartafla
200 ml vatn
200 ml eplaedik
200 g sykur

Aðferð

Sýrt rótargrænmeti
Hreinsið grænmetið og skerið það í þunnar sneiðar með mandólíni. Skerið þær sneiðar svo í þunnar ræmur.
Sjóðið saman vatn, edik og sykur í potti þangað til að sykurinn er allur leystur upp.
Setjið grænmetið í ílát og hellið edikblöndunni yfir.
Lokið fatinu með plastfilmu eða loki, setjið inn í ísskáp og látið standa yfir nótt.

Þorskhnakkar
Skerið þorskinn í bita á stærð við vísifingur.
Saxið fersku kryddjurtirnar smátt og blandið saman við pankó-raspinn.
Blandið saman hveiti og þurrkryddum í annarri skál.
Brjótið eggin og pískið saman í þriðju skálinni.
Því næst eru þorskbitarnir settir í hveitiblönduna, þaðan yfir í egggin og svo í skálina með raspinum.
Loks eru þorskbitarnir djúpsteiktir í olíu á 180°C þangað til þeir hafa náð gullbrúnum lit.
Athugið að ólífuolía hentar ekki til djúpsteikingar.  

Lárperumauk
Fjarlægið stein og hýði af lárperunum og setjið í skál.
Saxið rauðlauk smátt ásamt kóríander.
Hreinsið fræ úr tómötunum og skerið þá í litla teninga.
Þessu er svo öllu blandað saman í mauk.
Kreistið safa úr ½ límónu út í og smakkið til með smá salti.

Rétturinn settur saman
Hitið tortillakökur á pönnu eða grilli.
Setjið japanskt mæjónes á tortillakökuna, svo þorskbitana, lárperumaukið, sýrða grænmetið og kóríander efst.